Stórkostlegi Stokkhólmur
Höfuðborg Svíþjóðar er fádæma falleg stórborg, stútfull af sögu, magnaðri menningu og iðandi mannlífi. Borgin er byggð á fjórtán eyjum og stundum kölluð Feneyjar norðurins enda 57 brýr sem tengja hana og hægt að sigla þar um. Stokkhólmur er frábær áfangastaður allan ársins hring.

Stokkhólmur er miðpunktur menningar, stjórnmála og fjármála í Svíþjóð og því af nógu að taka. Í borginni eru yfir 70 söfn af ýmsum toga, stór græn svæði, fjöldi verslana og magnað menningarlíf. Svo eru Svíarnir einstaklega vingjarnlegir og félagslyndir og alltaf jafn hressandi að hlusta á syngjandi sænskuna. Ah!
Besta útsýnið
Heimsæktu ráðhús Stokkhólms, Stadshuset. Þar er stórveisla til heiðurs Nóbelsverðlaunahöfum haldin ár hvert og frá turninum er glæsilegt útsýni yfir alla borgina. Ráðhúsið var hannað af Ragnar Östberg og opnað á Jónsmessunótt árið 1923 og er eitt þekktasta kennileiti borgarinnar.

Söguleg stórborg
Í Gamla Stan, upprunalega borgarkjarnanum, slær sögulegt hjarta Stokkhólms og það er skemmtilegt að rölta um steinilögð strætin og kíkja í gallerí og antikbúðir, skoða aldagamla byggingarlist og gleyma stund og stað.

Náttúra og fjölskylduvæn skemmtun
Náttúruparadísin Djurgården er staðsett í miðjum Stokkhólmi og þessi gróðusæli griðarstaður er vinsæll áfangastaður hjá bæði ferðamönnum og heimamönnum. Á eynni er Vasa-safnið, sem hýsir hið glæsilega Vasa herskip frá 17. öld; Skansinn, elsta útisafn og dýragarður í heimi; og Junibacken, safn tileinkað sænskum barnabókmenntum og þá sérstaklega verkum Astrid Lindgren.

Næturlíf á Nóbelskala
Í Södermalm eða Söder eins og Svíarnir kalla hverfið, úir og grúir af skemmtilegum kaffihúsum, börum & klúbbum og þar er sérdeilis fjörugt næturlíf. Við mælum með að mæta tímanlega því eftir miðnætti fara raðirnar að lengjast. Svo er alltaf sniðugt að spyrja heimamenn um bestu skemmtistaðina.

Viðburðir
Það er hafsjór af spennandi viðburðum á dagskrá í Stokkhólmi allan ársins hring. Þjóðhátíðardagur Svía er haldinn hátíðlegur 6. júní og þá er um að gera að skella sér á Skansinn og kíkja á konungsfjölskylduna. Svo eru tónlista- og kvikmyndahátíðir, hönnunar- og listahátíðir, leikhús, íþróttaviðburðir, maraþon, gleðiganga og margt margt fleira.
Stokkhólmur hefur upp á margt að bjóða og við getum ekki beðið eftir að fljúga með ykkur þangað. Við eigum ódýrt flug til Svíþjóðar. Þú finnur besta verðið hér.
Ljósmyndir: Visit Stockholm