12 ástæður til að heimsækja Toronto
Það jafnast ekkert á við Toronto sem býður upp á stöðugan straum af einstökum augnablikum og sérstökum upplifunum. Hún kemur vissulega vel út úr samanburði við aðrar heimsborgir en hér er einfaldlega svo margt frábært að sjá, gera og borða.
1 - Kastalinn
Í Toronto má finna Casa Loma, eina alvörukastala Norður-Ameríku í fullri stærð. Casa Loma er fullorðinskastali með öllu sem því tilheyrir eins og 98 herbergjum, turnspírum, gullfallegum görðum og að sjálfsögðu leynigöngum.
2 - Karíbahafskarnivalið
Stærsta Karíbahafshátíð Norður-Ameríku er hin árlega Caribbean Carnival sem hefur verið haldið á götum Toronto síðan 1967. Hér mætast framandi búningar og suðrænar sveiflur í brjáluðu partíi sem teygir sig yfir 1,5 km.
3 - Hunangið
Fairmont Royal York var fyrsta hótel í heimi til að útbúa sitt eigið hunang, og það á þakinu! Nú búa 300.000 býflugur í býflugnabúinu þeirra sem framleiða yfir 363 kg af hunangi árlega.
4 - Stjörnurnar
Bono, Madonna og George Clooney hafa öll látið sjá sig á kvikmyndahátíðinni TIFF (Toronto International Film Festival). Þessi árlegi viðburður laðar að sér yfir 400.000 kvikmyndaunnendur frá um 65 löndum og já, það eru 100.000 fleiri en býflugurnar á Fairmont Royal York hótelinu enda er TIFF ein mikilvægasta kvikmyndahátíð Norður-Ameríku.
5 - Leikurinn
Ekki missa af leiknum og kíktu á Blue Jays á heimavelli, eina stóra hafnaboltalið Kanada. Það er líka góð skemmtun að fara í leiðsögn um Rogers Centre íþróttaleikvanginn, þar sem finna má fyrsta afturdraganlega þakið. Þetta magnaða verkfræðiafrek jafnast á við 31 hæða byggingu í hæð en það tekur 20 mínútur að opna því eða loka.
6 - Aðalleikurinn
Mekka hokkíaðdáenda er tvímælalaust að finna í Toronto. Í hokkífrægðarhöllinni The Hockey Hall of Fame má sjá stærsta safn hokkígripa í heimi, þar á meðal hinn víðfræga Stanley Cup. Fáðu nýja innsýn í þessa þjóðaríþrótt Kanadamanna með heimsókn í þetta dásamlega safn.
7 - Spennufíknin
Viltu skrúfa spennuna í botn? Stígðu þá um borð í stórhvelið Leviathan, hraðasta (148 km/h), brattasta (80-degree drop) og hæsta (93.3 m) rússíbana Kanada í skemmtigarðinum Wonderland. Haltu þér bara fast!
8 - PATH
Ekki missa af göngutúr um PATH! Þessi stærsta neðanjarðargönguleið í heimi, alls 28 km af verslunum, veitingastöðum, þjónustu og fyrirtækjum, býður upp á um 1.200 verslanir á einni gönguleið og í þokkabót þarf hér enginn að spá í veðri og vindum.
9 - Keramik
Keramiksafnið Gardiner Museum of Ceramic Art er eina safn Norður-Ameríku sem er algjörlega tileinkað keramiklist og er vel þess virði að sjá og skoða.
10 - Rauða þruman
Fáðu far með rauðu þrumunni (red rocket), eins og sporvagnar Toronto eru kallaðir. Stígðu um borð í 501 Queen sporvagninn hvenær sem er sólarhringsins, og njóttu 24,8 km ferðalagsins en þetta er lengsta áætlunarleið Norður-Ameríku.
11 - Veiðar
Farðu að veiða. Við borgarmörk Toronto er hægt að slaka á með veiðistöng og vonast eftir vænum feng. Það er nóg af laxi að finna í Credit River ánni þar sem gott er að veðja á helstu veiðistaði við ármót og þar sem áin rennur út í Lake Ontario vatn. Þetta eru borgarveiðar eins og þær gerast bestar.
12 - Menningin
Skósafnið Bata Shoe Museum er stórskemmtilegur viðkomustaður þar sem sjá má yfirgripsmiklar sýningar af skótaui og skótengdum staðalbúnaði og ómissandi eftirmiðdagur fyrir alla sanna skóunnendur.
Áður en heim er haldið er skyldumæting í Kensington Market, markað sem einkennist af sögu innflytjenda í borginni og er í raun stórskemmtilegt sýnishorn af fjölmenningarsamfélagi. Götulist, lifandi húsasund og sætar smábúðir einkenna hverfið allt og hér er svo sannarlega nóg að borða og drekka fyrir alla.
_____
Texti: Cindy-Lou Dale
Myndir: iStockphoto.com and Cindy-Lou Dale
Frekar upplýsingar um Toronto má nálgast á heimasíðu ferðamálaráðs Toronto-borgar.