Anna Gréta í Dallas
Í Dallas er allt stórt og litlir Íslendingar fá oft menningarsjokk af kæti þegar þeir sjá þessa stærðarinnar borg í stærsta fylki Bandaríkjanna: Texas.

Smáborgarbragur í stórborg
Það var dálítill smáborgarbragur yfir flugvellinum í Dallas sem er gott, litlar raðir gera mig glaða. Starfsfólk flugvallarins var allt af vilja gert og svaraði öllum spurningum með bros á vör. Töskurnar komu strax og allt gekk fljótt og vel fyrir sig.
Það kom hins vegar helst á óvart hvað allt er risastórt í sjálfri Dallas-borg. Það er alls ekki auðvelt að átta sig á borginni og það borgar sig því að nota staðsetningaröppin í símanum til að vita hvar maður er staddur hverju sinni. Ef allt annað bregst eru Dallas-búar ótrúlega vinalegt fólk og vísa manni veginn með bros á vör.

Toppurinn á tilverunni
Við vorum þarna í flugliðaferð til að taka kynningarmyndir fyrir WOW air og fórum í lítinn bæ sem var gerður eins og villta vestrið. Þar var hægt að gera ýmislegt eins og að fara á hestbak og horfa á rekstur hjá kúrekum. Við fjárfestum að sjálfsögðu í kúrekahöttum þar og lögðum WOW-hattinn á hilluna um tíma.
Við fengum að fara á hestbak í ferðinni sem var klárlega toppurinn hjá mér. Ég hef verið í hestamennsku frá því að ég var lítil stelpa en hef aldrei prófað svona stóra hesta þannig að það var alveg einstök kúrekaupplifun.

Matur og myndir
Við fengum mjög góðan mat þarna og það var mikið úrval af góðum veitingastöðum. Þar sem ég er grænmetisæta borðaði ég eflaust ekki mjög dæmigerðan Dallas-mat enda tíðkast mikið kjötát þarna og borgin þekkt fyrir gómsætar steikur.
Margaret Hunt Hill brúin er einstök og því tilvalið tækifæri að smella af sér mynd með henni. Ef þú rekst á kúreka á förnum vegi þá er um að gera að taka upp símann og taka mynd.

Ég væri klárlega til í að fara aftur til Dallas og hafa þá fleiri daga til að geta notið alls þess sem borgin hefur uppá að bjóða. Ég hefði til dæmis verið til í að fara í sögutúr og fræðast meira um sögu Dallas. Mér hefði líka þótt áhugavert að skoða staðinn (og safnið) þar sem JFK var skotinn.
WOW air flýgur sitt fyrsta áætlunarflug til risastórborgarinnar Dallas í maí 2018. Bókaðu ódýrt flug til Dallas og sjáðu þessa stórvöxnu kúrekaborg með eigin augum.
_____
Myndir: WOW air, visitdallas.com og iStockphoto.com