Eðaláfangastaðir á aðventunni
Eitt það allra besta við jólin er aðventan. Stemningin, spenningurinn og undirbúningurinn haldast í hendur við að byggja upp jólaandann í aðdraganda hátíðanna. Það jafnast fátt á við að kúpla sig út úr stressinu hérna heima, fara í litla aðventuferð, versla jólagjafir og njóta jólaandans á nýjum slóðum. Hér eru nokkrir af uppáhaldsáfangastöðunum okkar á aðventunni.
Berlín
Þegar kemur að jólamörkuðum er Berlín einfaldlega heimsmeistarinn. Kannski er það af því að í Berlín er að finna frábæra markaði allt árið um kring eða af því að heitt Glühwein og ristaðar möndlur er bara svo dásamlega gott kombó. Það er bara ekkert sem segir aðventa eins og Berlín.
Af gríðarlegu úrvali ætti fyrsti jólamarkaðurinn á listanum að vera WeihnachtsZauber á gullfallegu Gendarmenmarkt-torgi. Þetta er einn vinsælasti og frægasti jólamarkaðurinn í Berlín og þar úir og grúir af öllu jóla. Básarnir eru fjölmargir og yfirleitt fær maður að heyra í að minnsta kosti einum kór í hverri heimsókn og svo er alltaf hægt að tylla sér í veitingatjaldið ef verslunargleðin dvínar.
Lúsíu jólamarkaðurinn í Kulturbrauerei í Prenzlauer Berg er í sérstöku uppáhaldi hjá Norðurlandabúum í Berlín því hann er jú innblásin af öllu skandinavísku og krúttlegasti lífræni markaðurinn í Berlín hlýtur að vera sá á Kollwitzplatz í sama hverfi. Þótt sá sé tæknilega ekki jólamarkaður verður hann gríðarlega hátíðlegur fyrir jólin. Þetta er lítill markaður en fullkominn til að finna eitthvað einstakt og handgert í jólagjöf handa fólkinu sem á allt.
London
Er eitthvað jólalegra en bresk jól? Á aðventunni dúlla Bretar sér við að klippa út heimagerð jólakort og baka hræðilegu jólakökuna sína sem enginn undir sextugu borðar en lítur alltaf svo ótrúlega vel út. Fyrir verslunarfíkla í jólaleiðangri eru Oxford Street og Harrods með sínum geggjuðu jólaskreytingum fullkomnir viðkomustaðir og þegar börnin eru farin að bilast á búðunum er tilvalið að kíkja í Winter Wonderland jólalandið í Hyde Park. Þar er hægt er að fara í ótal tæki, borða jólasnarl, skoða jólabrúðuleikhús og drekka heitt kakó. London er líka frábær borg til að detta inn á jólatónleika í einhverri af fjölmörgum sætum kirkjum borgarinnar.
París
Parísarbúar gera allt með stæl og jólin eru þar engin undantekning. Magnaðar jólaskreytingarnar á Champs-Elysées, risavaxið jólatréð og uppljómað parísarhjólið á Place de la Concorde eru ómissandi viðkomustaðir á aðventunni. Einn af stærstu jólamörkuðum borgarinnar er sá í La Défense en þar er að finna yfir 300 sölubása sem eru fullir af jólalegum kræsingum og gersemum undir risavöxnum stálboga hverfisins. Beint á móti Eiffelturninum er hægt að fara á skauta og fá sér heitt kakó í snjóþorpinu í Trocadero-görðum og ef það dugar ekki til mælum við með jólasveinaþorpinu í Saint-Sulpice þar sem sá gamli heldur uppi stemningunni. Fyrir foreldra sem vilja versla eitthvað í dýrari kantinum má benda á sérstakt jólasveinaþorp í latneska hverfinu innan um verslanir Louis Vuitton og Christina Dior svo fátt eitt sé nefnt.
Kaupmannahöfn
Þjóðin sem hefur fullkomnað hygge-stemninguna kann svo sannarlega að gera sér góða aðventu. Jólamarkaðurinn í Den Grå Hal í Kristjaníu hefur verið ómissandi árlegur viðburður fyrir marga Kaupmannahafnarbúa síðan á 8. áratugnum og ekki að ástæðulausu því þetta hlýtur að vera einn litríkasti og skemmtilegasti jólamarkaður á norðurhveli jarðar. Fyrir þá sem eru að leita að einhverju einstöku má benda á að hönnunar- og arkitektaskólinn KADK er yfirleitt með markað á verkum nemenda fyrir jólin. Hvert mannsbarn veit að það er ekkert jafnævintýralega jólalegt eins og heimsókn í Tivoli á aðventunni og svo er dásamlegt að fá sér julefrokost á einhverjum af fjölmörgum veitingastöðum borgarinnar. Ef jólaandinn ætlar ekki yfir þig að koma er síðasta hálmstráið að koma við á skautasvellinu í Frederiksberg, leigja skauta og detta á rassinn í hláturskasti með hinum dönsku jólasveinunum.
Boston
Ef hugmyndin er að versla jólagjafirnar snemma er Boston fullkominn áfangastaður. Þá má sérstaklega benda á daginn eftir þakkargjörðardaginn eða Black Friday sem í ár verður 23. nóvember. Þá er allt á brjálæðislegu tilboði og metnaðarfullir kaupahéðnar bretta heldur betur upp ermar þennan dag. Á aðventunni sjálfri er tilvalið að fara á Quincy Market í Faneuil Hall en þar má dást að risastóru jólatré og ilminum af ristuðum hnetum á meðan tónlistarfólk heldur uppi stemningunni allt í kring um krúttlegt jólaskrautið. Fyrir þá sem þurfa að versla mikið í jólapakkana er best að njóta úrvalsins og verðlagsins í verslunarmiðstöðvunum sem eru að sjálfsögðu eins jólalegar og hægt er að hugsa sér á þessum árstíma. Þegar jólagjafirnar eru klárar má bæta jólaandann með ferð á skautasvell í nágrenninu en á þeim er enginn skortur í Boston. Við mælum sérstaklega með Frog Pond í Boston Common og ævintýralegu jólastemningunni þar. Boston býður líka upp á töluvert öðruvísi afþreyingu á aðventunni en Íslendingar eru vanir og það er tilvalið að nýta ferðina til að skella sér t.d. á jólatónleika með poppsinfóníunni Boston Pops, á uppsetningu á Hnetubrjótnum eða jafnvel bara fara alla leið og sjá loksins Disney on Ice.
Byrjaðu snemma að pakka og njóttu aðventunnar í útlöndum í ár með því að kaupa þér ódýrt flug út í heim með WOW air.
_____
Myndir: iStock