Klassíska Cambridge
Cambridge á Austur-Englandi tengja líklega flestir við Cambridge háskóla sem var stofnaður árið 1209 og er því annar elsti háskóli í hinum enskumælandi heimi á eftir Oxford. Cambridge háskóli á vel inni fyrir frægðinni enda yfirleitt talinn til fimm bestu háskóla heims. En það er margt fleira að sjá og gera í Cambridge en að ganga í háskóla.
Í Cambridge búa rúmlega 130.000 manns sem þýðir að þótt hún sé vissulega borg er hún engin stórborg og viðheldur því ákveðnum sveitasjarma innan um litríkt mannlíf og menningu. Smáborgarstemningin er greinileg í samgöngum borgarbúa en Cambridge er stundum kölluð hjólahöfuðborg Bretlands. Jafnframt er þar að finna lengstu strætóleið í heimi á stýrðri leið, The Busway sem telur heila 25 km, og er hálfgerð blanda af strætó og lest, eða það sem Íslendingar þekkja sem borgarlínu. Strætóinn ekur á sínum eigin teinum og því óþarfi að fá taugaáfall þegar bílstjórinn snýr sér við og fer að tala með höndunum.
Einkabíllinn er ekki í hávegum hafður í Cambridge og heimamenn duglegir að nýta sér svokallað Park & Ride, sem eru risabílastæði fyrir utan borgina þar sem hægt er að leggja sér að kostnaðarlausu og taka svo strætó eða hjóla þangað sem leið liggur í miðborgina.
Cambridge er kennd við ána Cam sem rennur þar í gegn og setur fallegan svip á mannlífið. Ein af helstu iðjum Cambridge-búa og gesta þeirra er svokallað „punting“ sem er að sigla eftir ánni á flötum bát sem er stýrt með löngu priki, ekki ósvipað gondólum í Feneyjum. Þetta er að sjálfsögðu ótrúlega rómantísk og ljúf leið til að skoða þessa fallegu borg en árbakkinn er líka dásamlegur staður til að láta tímann líða þegar vel viðrar.
Cambridge háskóli er eins og áður sagði einn sá frægasti í heimi og samanstendur af mörgum minni skólum. Þar ber helst að nefna Trinity College sem einn og sér hefur útskrifað 32 Nóbelsverðlaunahafa og meistara á borð við Isaac Newton, Stephen Hawking, Sir David Attenborough og Vladimir Nabokov. Fyrir vísindanördana má geta þess að eplatréð fyrir utan Trinity College er sagt vera afkomandi fræga trésins sem kenndi Newton á þyngdaraflið.
Cambridge-búar, eða „Cantabrigians“ eins og þeir eru oft kallaðir, eru eðalfólk og þaðan hefur sannarlega margt gott komið. Fyrir utan alla snillingana sem hafa stundað sitt nám í Cambridge koma músíkséníin í Pink Floyd frá Cambridge og hljómsveitin spilaði oft í borginni á 7. áratugnum. Til gamans má geta að lagið Grantchester Meadows er samið um heimabæinn.
Það er nóg að sjá og skoða í Cambridge en fyrir utan alla byggingalistina og sögufrægu staðina má nefna stærðfræðibrúna eða „Mathematical Bridge“ sem er skemmtileg göngubrú úr tré. Brúin var hönnuð árið 1749 en hefur nokkrum sinnum verið endurbyggð í upprunalegri mynd. Hönnunin er óvenju fáguð en þótt brúin virðist vera bogadregin er hún gerð eingöngu úr þráðbeinum timburplönkum.
Þeim sem þykir nóg um rólegheitin ættu að skoða einhverja af mörgum hátíðum sem haldnar eru í borginni eins og t.d. tónlistar- og listahátíðina Strawberry Fair sem fer fram í Midsummer Common garðinum eða bjórhátíðina Cambridge Beer Festival í garðinum Jesus Green.