Leynilegt líferni Eiffelturnsins
París! Borg ljósanna, kaffihúsanna og hins fræga Eiffelturns sem er eitt stærsta ferðamannaundur heims. Hver verður ekki fyrir rómantískum hughrifum þegar hann ber þetta stórbrotna mannvirki augum, baðað í glitrandi ljósum?
Ekki er þó allt sem sýnist þegar kemur að þessari mögnuðu byggingu. Flestir vita að turninn var byggður af Gustave Eiffel fyrir Heimssýninguna 1889 og að á þeim tíma var Eiffelturninn stórbrotið afrek í arkitektúr og hæsta bygging heims. Færri vita að hann átti bara að standa í tuttugu ár.
Tákn verður til
Byggingin varð fljótt gríðarlega umdeild og sögðu gagnrýnendur hennar að hún væri „tilgangslaus og tröllaukin“. Virtir rithöfundar, listamenn, arkitektar og auðugir Parísarbúar kröfðust þess að „hörmungin“ yrði rifin. Reyndar stóð ekki annað til því turninn átti bara að standa í 20 ár en hann slapp þó við skrekkinn og kom þar tvennt til. Í fyrsta lagi reyndist turninn hentugt mastur og í öðru lagi jukust vinsældir hans meðal almennings þegar fram leið. Bákn breyttist í borgartákn.
Statt og stöðugt
Undir turninum starfar ósýnilegur hópur fólks við að halda honum uppistandandi og ganghæfum. Risastórir kjallarar undir turninum geyma gríðarstórar vökvadælur sem keyra gestalyfturnar sem byggðar voru árið 1899. Stórir og litríkir gírar snúa þungum kapalhjólum hring eftir hring og 3.700 lítrar af vatni virka sem mótvægið sem þarf til að hífa gestina upp og niður.
Starfsfólkið smyr og skoðar hina mörgu hluta virkisins daglega en þessi mikla notkun tekur sinn toll af þessum ósýnilega en jafnframt risavaxna vélbúnaði. Mót hafa verið tekin af hverju einasta tannhjóli, hverri einustu skrúfu og hverju einasta hjóli í þessum gömlu vökvadælum til að hægt sé að smíða varahluti í dælurnar og koma í veg fyrir slys eða uppákomur. Margir kílómetrar af vatnsslöngum sem bera vatnið úr neðanjarðardælunum liggja í gegnum turninn og málmvirki hans. Slöngurnar eru ekki varðar veðri og vindum og þeim þarf að viðhalda vandlega svo vatnið komist um allt mannvirkið á köldum vetrarkvöldum sem og heitum sumardögum.
Ekki missa‘ða
Það þarf hæfileikaríkt og áhugasamt starfsfólk til að halda járnrisanum góðum. Þessi vandlega umhyggja fyrir byggingunni er vitnisburður um þolinmæði þeirra en það getur tekið allt að klukkutíma að skipta um eina ljósaperu. Starfsfólkið þarf að passa vandlega upp á að ferðamenn sjái ekki til þeirra og að missa ekkert úr vösunum. Allt sem fellur til jarðar gæti reynst þeim sem verður fyrir því á jörðu niðri hættulegt. Vandlega útfært kerfi nælonneta og fagmannleg handtök halda bæði starfsfólki og gestum öruggum.
Næst þegar þú virðir fyrir þér þetta mikilfenglega tákn Parísarborgar skaltu hafa í huga þá nákvæmni og ástríðu sem einkennir viðhaldið á sérhönnuðu dælunum, hiturunum, ljósaperunum, tannhjólunum, gírunum og köplunum sem mala djúpt í innyflum byggingarinnar, þar sem enginn ferðamaður fær nokkurn tímann að stíga fæti.
Þú finnur ódýrt flug með WOW air til Parísar allan ársins hring.
_____
Texti: Katie Ware
Myndir: istockphoto.com