Litlir ferðalangar á ferð og flugi
Hvort sem þú ert foreldri, eða farþegi, hefur þú líklega orðið vitni að ofurþreyttum foreldrum og úrillum börnum reyna að þrauka almennt geðvonskukast í flugvélinni eða á flugvellinum. Og hver láir þeim það? Við vitum öll að það getur reynt á þolrifin að ferðast. Það getur hins vegar bjargað geðheilsu þinni, og barna þinna, að hafa meðferðis hinn fullkomna skemmtipakka. Auk þess sem það þarf ekki að kosta mikið. Ég tók saman nokkur heilræði sem hafa nýst mér vel í gegnum tíðina þegar ég hef ferðast með börnin mín.
Notaðu hyggjuvitið
Það er auðvelt að hafa ofan af fyrir krökkum á öllum aldri með rétta skemmtiefninu, galdurinn felst í því að pakka af klókindum. Hafðu í huga að það getur reynst bæði erfitt og dýrt að verða sér úti um ýmsar nauðsynjar þegar ferðalagið er hafið. Reyndu að pakka á eins hagkvæman máta og mögulegt er, því líklega munt þú bæði þurfa að halda á töskunni, krakkanum sjálfum, og hafa eigin ferðatösku í eftirdragi.
Kíkt í skjóðuna!
Gott getur verið að hafa hita- og verkjastillandi lyf meðferðis, og jafnvel saltvatnsdropa eða annan nefúða. Einnig getur verið gott að hafa blautþurrkur og sótthreinsigel við höndina. Litlu krílin mín eru með viðkvæm eyru og fá nefrennsli við minnsta tækifæri. Mér þykir því nauðsynlegt að að hafa nóg af bréfþurrkum og tyggjói meðferðis.
Svöng kríli geta fljótlega breyst í harðsvíraða flugdólga, og því mikilvægt að halda þeim vel mettum. Fingrafæða í smáum skömmtum er þess vegna bráðnauðsynlegur ferðafélagi.
Útvegaðu þér meðfærilega regnhlífakerru sem leggja má saman. Gangan í gegnum flugvöllinn getur verið löng, og að bera sofandi börn langar vegalengdir er líkt því að að ferja múrsteina.
Dægradvöl og skemmtilegheit
Finndu eitthvað að gera fyrir krakkana (annað en að gera þig klikk). Ýmsir athyglisleikir, ásamt föndri, eru lykillinn að skemmtilegum flugferðum. Verið skapandi, dustið til dæmis rykið af gamla, góða leirnum. Útvegaðu unga ferðalanginum tól til að kortleggja flugferðina, til að mynda áttavita og kort. Sonur minn verður alltaf jafn spenntur þegar hann sér nálina á áttavitanum taka kipp við flugtak. Þetta er líka frábært tækifæri til að kynna barnið fyrir landafræði.
Eftir því sem barnið eldist, og verður meiri heimsborgari, mun innihald ferðapakkans breytast. Verið klók, undirbúið ykkur vel og fyrir alla muni, munið að anda!
XO
Mamma og ferðafíkill
_____
Texti: Myla Twille
Myndir: iStockphoto