Ljósmyndaleiðsögn um Tenerife
„Loftslagið er fullkomið á Tenerife yfir veturinn og þar að finna dásamlegan mat og æðislegan arkitektúr. Svo elska ég eldfjallið Teide - þetta er einn af uppáhaldsstöðunum mínum til að ljósmynda og þetta er fullkominn staður til að fanga stjörnubjartan himininn,“ segir ljósmyndarinn Olaf Reinen.
Á flandri
Olaf var ungur þegar hann hóf að starfa sem ljósmyndari og hefur verið atvinnumaður í faginu í meira en 25 ár. Í seinni tíð hefur hann varið miklum tíma í að kanna eyjuna Tenerife. „Náttúruleg forvitni mín og ástríða mín fyrir ljósmyndun fær mig til að leita stöðugt að bestu stöðunum til að mynda. Það er svo fjölbreytt útsýni í boði hérna með þorp, strendur, skóga, fjall og hraun. Þetta er frábær flóra fyrir ljósmyndara,“ segir Olaf. „Ég elska að ferðast og hef heimsótt yfir 40 lönd, allt frá Nýja Sjálandi til Karíbahafsins, Hong Kong og Evrópu. Heimurinn er fullur af mögnuðum stöðum sem ég elska að kanna og mynda.“
Á löngum ferli hefur Olaf meðal annars rekið vinsælt ljósmyndastúdíó á Nýja Sjálandi sem sérhæfir sig í brúðkaupsmyndum og sjö bækur með texta og myndum eftir hann hafa verið gefnar út á alþjóðlegum vettvangi. Eftir farsælan feril og alþjóðlegar viðurkenningar ákváðu Olaf og eiginkona hans að ferðast í leit að nýjum heimkynnum. Þremur árum síðar settust þau að á grísku eyjunni Santorini. Á sumrin sinnir Olaf ljósmyndaleiðsögn á Santorini og á veturna gerir hann það sama á Tenerife. „Ég áttaði mig á að mér fer vel úr hendi að deila reynslu minni af ljósmyndun með fólki sem vill öðlast meiri færni. Ljósmyndaleiðsögn er frábær leið til að komast beint á myndrænustu staðina og læra hvernig best er að fanga það sem fyrir augu ber.“
Ljósmyndaleiðsögn fyrir alla
Þeir sem ætla að bóka leiðsögn með Olaf þurfa ekki að hafa áhyggjur af ljósmyndafærninni. „Viðskiptavinir mínir eru með mismikla reynslu og mæta til leiks með alls konar búnar, allt frá óreyndum snjallsímaljósmyndurum til þaulreyndra áhugamanna með alvörumyndavélar. Ég býð einungis upp á einkaleiðsagnir, þ.e.a.s. ég blanda ekki saman í hóp fólki sem ekki þekkist, sem þýðir að leiðsögnin er sérsniðin að þörfum hvers og eins. Mér finnst gaman að hjálpa öllum!“
Ef hugmyndin er að ná frábærri mynd af ákveðnum stöðum er mun auðveldara að njóta leiðsagnar einhvers sem kann á staðinn og birtuskilyrði yfir daginn. „Ég legg áherslu á myndrænni staði og auðvitað fer ákveðinn tími í að ræða ljósmyndun sem er alltaf skemmtilegt. Ég deili reynslu minni og nálgun á ljósmyndun ásamt hagnýtum ráðum varðandi myndavélar þannig að fólk ætti að öðlast nýja færni og fá nýjar hugmyndir í lok dagsins,“ bætir Olaf við.
Hin óviðjafnanlega Tenerife
„Ég laðast að því sem er skringilegt sem maður rekst oft á í borgarumhverfi en ég elska líka þann frið og ró sem fylgir sveitinni og dreifbýlinu. Náttúran hér er mögnuð og Tenerife býðu upp á svo fjölbreytt landslag,“ segir Olaf.
Talandi um magnað landslag, eldfjallið Teide virðist hafa töfrandi tangarhald á Olaf og hann segir það alltaf ganga í augun á honum og viðskiptavinum hans. „Þetta er staður sem kallar bara fram slík hughrif,“ segir Olaf. En það eru fleiri myndrænir staðir á eyjunni. „Það er svo skemmtilegt að mynda litríkt karnivalið sem er haldið hér í febrúar á hverju ári.“ Þegar hann er beðinn um að nefna uppáhaldsstaðinn sinn á Tenerife stendur ekki á svörunum. „Þeir eru svo margir - Garrachico, skógurinn í Las Raices, La Laguna, Auditorio de Tenerife, Teide… ég gæti haldið endalaust áfram!“
Þar sem Olaf eyðir vetrinum á Tenerife er það auðvitað uppáhaldsárstíminn hans. „Sérstaklega ef það snjóar í Teide. Ég get verið að mynda snjóinn í fjallinu og verið kominn niður á strönd að leika mér í öldunum tveimur tímum seinna. Heimamenn gera sér leik úr því að byggja snjókarl á bílhúddinu og reyna svo að koma honum heilum á ströndina. Ég hef reynt það og þetta er gerlegt!“
Viltu ná frábærum myndum á Tenerife? Kíktu á heimasíðurnar Tenerife Photography Tours og Santorini Photo Tours til að bóka þér ljósmyndaleiðsögn með Olaf.
_____
Myndir: Olaf Reinen