Ljúffengir jólamarkaðir í ljúfu London
London breytist í dásamlega jólaborg löngu áður en formleg aðventa hefst. Í þessari menningarlegu höfuðborg er að finna ofgnótt af stórum sem smáum jólamörkuðum af öllum gerðum: hátíðlegir, hip, kúl, kitsch og umfram allt, ljúffengir.
Southbank Centre Jólamarkaðurinn
Southbank Centre Christmas Market er fyrsta flokks viðkomustaður fyrir jólaþyrsta. Markaðurinn stendur á spennandi stað við bakka Thames ár, er í göngufæri frá Covent Garden verslunarsvæðinu og steinsnar frá skautasvæðinu við Somerset House hinum megin við ána. Hér má finna alls konar gersemar í jólapakkana en umfram allt njóta jólaandans sem ræður ríkjum þegar gengið er á milli sjarmerandi sölukofanna.
Southbank Centre Matarmarkaðurinn
Matarmarkaður Southbank Centre er staðsettur rétt fyrir aftan Royal Festival Hall og er opinn um helgar. Þetta er gríðarlega vinsæll markaður fyrir jólin því hér má finna dýrindis kræsingar á jólahlaðborðið og grípa sér ljúffenga rétti frá öllum heimshornum til að hlaða batteríin í jólagjafainnkaupunum.
Tate Modern
Ef gengið er lengra eftir South Bank blasa við sölubásarnir fyrir framan Tate Modern safnið. Þetta er jólamarkaður með öllu tilheyrandi, krúttlegum kofum, gulli, gersemum og meira að segja hringekju fyrir minnstu gestina. Hér er tilvalið að grípa sér ristaðar möndlur og glühwein ef stemningin dugar ekki til. Ef kuldinn fer svo að segja til sín er frábært að skjóta sér inn á safnið og hlýja sér á efstu hæð Tate Modern með magnað útsýnið yfir borgina fyrir augunum.
Borough Market
Ef haldið er áfram að London Bridge fer Borough Market ekki fram hjá neinum. Þetta er elsti og vinsælasti matarmarkaður London, síðan á 13. öld. Á aðventunni streyma Lundúnabúar á Borough markað til að versla jólamatinn. Ekki láta hátíðlegar bollakökurnar og sælkerakjötið fram hjá þér fara.
Brindisa
Fyrir mestu heimsborgarana borgar sig að kíkja á besta spænska matarmarkað London, Brindisa. Hér má finna niðursoðið góðgæti, guðdómlegt chorizo, krydd af bestu gerð og aðrar kræsingar. Market Porter Pub er síðan góður staður til að hvíla lúin bein og drekka í sig jólaandann.
Fyrir matgæðinga og jólabörn jafnast fáir áfangastaðir á við dýrðlegu London.
_____
Texti: Christopher Kanal
Myndir: iStockphoto.com