Sumar í Washington, D.C.
Sumarið er tíminn í D.C. Fljúgðu með WOW air til Washington, D.C. og eigðu frábært frí í fallegu Ameríku.
Það er nóg um að vera í DC yfir sumartímann. Skemmtilegar hátíðir, rokkandi góðir tónleikar, margvíslegir viðburðir og rífandi góð stemning um borgina þvera og endilanga. Já, það er svo sannarlega hægt að rata í skemmtileg ævintýri og upplifa margt áhugavert og minnisstætt í þessari líflegu heimsborg.
BROT AF ÞVÍ BESTA:
- Djassinn dunar á DC Jazz Festival þar sem bebop og blús óma í fæðingarborg Duke Ellingtons. Það er gaman að geta sagt frá því að fjöldinn allur af íslensku tónlistarfólki hefur spilað á hátíðinni við góðan orðstír.
- Lífsglaðir list- og leikhúsunnendur finna eitthvað við sinn smekk á Source Festival og Capital Fringe Festival þar sem nýsköpun, myndlist, ljóðlist og leiklist eru í fyrirrúmi, og upprennandi leikhús- og myndlistarfólk lætur ljós sitt skína.
- Fyrir kvikmyndaáhugafólk ber alþjóðalega heimildamyndahátíðin AFI Docs hæst, þar sem pólitík og kvikmyndagerð mætast ár hvert og eiga í innilegu samtali ásamt áhugasömum áhorfendum og þáttakendum.
- Þú færð fjölbreytileika mannlífsins beint í æð á hinni sérdeilis líflegu Smithsonian Folklife Festival þar sem ólíkir menningarheimar og menningarkimar koma saman. Dansinn dunar, söngurinn hljómar og girnilegir þjóðarréttir eru á boðstólunum - svo fátt eitt sé nefnt.
- Á sjálfan þjóðhátíðardaginn er að sjálfsögðu mikið um að vera, flugeldar og heilmikið húllumhæ! The National Independence Day skrúðgangan fer fram fyrri part dags og það er um að gera að mæta snemma og tryggja sér pláss framarlega svo öll herlegheitin fari nú ekki framhjá manni. Um kvöldið hópast fólk saman á National Mall, sem teygir sig rúma 3 km frá Þinghúsinu að Lincoln-minnismerkinu, og fylgist með flugeldasýningunni.
- Í ágústmánuði fer fram hin svonefnda Veitingahúsavika - Restaurant Week - þar sem meira en 200 af bestu veitingahúsum D.C. bjóða rétti af matseðlum sínum á talsvert lægra verði. Það er þó vissara að panta sér borð tímanlega því það eru margir sem vilja ólmir snæða ódýrt á heitustu mathúsum borgarinnar og best að grípa gæsina meðan hún gefst.
- Fyrsta helgin í september er tileinkuð degi verkalýðsins - Labor Day - og á sunnudeginum eru tónleikar á Capitol Hill. Þá bregður fólk sér í lautarferð og nýtur ljúfra tóna sinfóníuhljómsveitarinnar - The National Symphony Orchestra.
- Lestrarhestar og bókaunnendur geta hitt alla uppáhaldsrithöfundana sína á Library of Congress bókahátíðinni þar sem yfir 100 rithöfundar, myndskreytar og ljóðskáld mæta ár hvert og eru með upplestra, fyrirlestra og bókaáritanir.
- Á molluheitum sumardögum er tilvalið að tipla um loftkældar safnabyggingar, og svo heppilega vill til að stærsta safn heims, Smithsonian-safnið, sem geymir um 137 milljón verðmæta og aldagamla safnhluti, er í Washington, D.C.
- Á National Gallery of Art er síðan hægt að sjá Ginevra de'Benci, eina málverk Leonardo da Vincis í Bandaríkjunum.
- Það er frítt í dýragarðinn og þar bíða þín yfir 400 dýrategundir. Hugrakkir ferðalangar geta skokkað yfir í skordýragarðinn og staðið augnlitis til augnlitis við loðnar tarantúlur svo eitthvað sé nefnt.