Unga borgin Tel Aviv
Tel Aviv er nútímaleg og frjálslynd strandborg á sögufrægu og umdeildu svæði.
Hingað streyma bæði Ísraelsmenn og heimsborgarar hvaðanæva að, bæði til að njóta lífsins á ströndinni og til að sinna metnaðarfullum frama í tæknigeiranum. Tel Aviv er nefnilega hvort tveggja í senn, afslöppuð og spennandi en sama hvernig deginum er varið hittast borgarbúar yfirleitt á einhverjum af óteljandi kaffihúsum, börum eða skemmtistöðum borgarinnar þegar sólin lækkar á lofti.
Fyrir utan Silicon Valley í Bandaríkjunum eru hvergi fleiri sprotafyrirtæki í tæknigeiranum en í Ísrael og gríðarlegur fjöldi þeirra er einmitt í Tel Aviv, efnahagsmiðstöð landsins.
Alltaf á uppleið
Í takt við sprotafyrirtækin og frumkvöðlana sem þar vinna er næturlíf borgarinnar löngu orðið heimsfrægt og hér kunna íbúar og gestir svo sannarlega að skemmta sér. Fallegar strendur, frábært næturlíf og mjög góðir háskólar á svæðinu útskýra að einhverju leyti þá staðreynd að þriðjungur borgarbúa er á aldrinum 18-35 ára.
Kaffipásan
Eitt sérkenni Ísraela og þá alveg sérstaklega í Tel Aviv er ástríðufullur áhugi þeirra á morgunmat, hádegismat og kaffipásum. Ísraelar eru áberandi á kaffihúsunum á morgnanna, að ná sér í morgunmat á leiðinni í vinnuna og þeir borða oft úti í hádegishléinu. Það kemur þó ekki í veg fyrir góða kaffipásu um eftirmiðdaginn og góðir vinir hittast oft á kaffihúsum borgarinnar á vinnutíma. Við mælum með því að ferðamenn geri bara eins og heimamenn og tylli sér sem oftast niður yfir góðum kaffibolla á strætum borgarinnar.
Ströndin
Ströndin er augljós valkostur fyrir þá sem vilja njóta lífsins í Tel Aviv en allar helstu strendurnar má finna í Merkaz Hair sem er miðbær borgarinnar. Gordon, Frishman og Bugrashov eru þær vinsælustu en norðar er að finna strendur sem LGBT–samfélagið heldur hvað mest upp á.
Stemningin á ströndunum er afslöppuð en hér eru flestir að sinna eigin hugðarefnum, að liggja í sólbaði, snorkla og njóta lífsins í vellystingum. Ekki láta þér bregða þótt þú sért skyndilega kominn í miðjan „matkot,“ sem er vinsæll boltaleikur meðal heimamanna og ekki gleyma sólarvörninni!
Barir og klúbbar
Helsti munurinn á næturlífi Tel Aviv og flestra annarra vestrænna stórborga eru tímasetningarnar því yfirleitt er mesta stuðið með seinni skipum í Tel Aviv. Ísraelar líkt og Íslendingar fara oftast ekki að heiman fyrr en upp úr 22. Farið er að þéttast á börunum um miðnætti og skemmtistaðirnir eru orðnir fullir um tvö. Fyrir vikið eru flestir staðir opnir langt fram á morgun þannig að það borgar sig að sofa út ef maður ætlar að halda í við heimamennina.
Markaðir
Eins og í flestum borgum í Austurlöndum nær er frábært að eyða deginum á markaði eða „shuk“ eins og heimamenn kalla þá. Kíkið á Shuk HaCarmel, Shuk Hapishpashim, Shuk Levinsky eða Shuk HaNamal til að eyða fáránlega litlum peningum í dásamlegan mat og guðdómlegt glingur.
Söfnin
Menningarvitar mega ekki missa af listasafninu Tel Aviv Museum of Art, hönnunarsafninu Design Museum í Holon og Palmach-safninu. Það er heldur ekki langt að fara í hið nýuppgerða Israel Museum í Jerúsalem en þangað leggja yfir milljón ferðamenn leið sína á ári hverju enda um óviðjafnanlega upplifun að ræða.
Dagsferðir
Þessar frábæru strendur og þetta magnaða næturlíf geta fangað ferðamenn innan borgarmúranna en það er vel þess virði að kíkja í dagsferðir til að sjá meira af þessu merkilega landi. Samgöngur eru hér bæði þægilegar í notkun og ódýrar og Ísrael er svo lítið land að það er hægt að komast nánast hvert sem er á einum degi.
Nokkrir góðir punktar
- Wi-Fi: Flest kaffihús í Tel Aviv bjóða upp á ókeypis Wi-Fi en borgaryfirvöld bjóða einnig upp á 80 ókeypis Wi-Fi reiti um alla borg og til stendur að fjölga þeim enn frekar.
- Ísraelska viðmótið: Ísraelar eru þekktir fyrir að sveiflast á milli þess að vera önugir og indælir. Ekki láta það trufla þig og ekki taka því persónulega þótt einhver hrópi á þig á markaðnum eða leigubílstjórinn liggi fúll á flautunni. Borgin er mjög örugg og flestir eru bæði hjálpsamir og vingjarnlegir.
- LGBT í Tel Aviv: Tel Aviv er frábær LGBT-áfangastaður. Þar er gleðigangan haldin í júní og árlega mæta mörg þúsund gestir í þetta litríka og góða partí.
- Götumatur í Ísrael: Falafel, shawarma, sambousek, schnitzel og hummus er áberandi snarl fyrir fólk á ferðinni í Ísrael. Ólíkt mörgum öðrum áfangastöðum er götumaturinn í Ísrael besta maturinn á svæðinu. Enginn ætti að láta þetta góðgæti fram hjá sér fara.
____
Texti og myndir: Cindy-Lou Dale