Skúli Mogensen
Forstjóri WOW air
Skúli Mogensen er stofnandi og forstjóri WOW air. Fyrir stofnun flugfélagsins hafði hann unnið sem frumkvöðull og fjárfestir, aðallega í tækni- og fjarskiptageiranum í Norður-Ameríku og Evrópu. Skúli var valinn viðskiptamaður ársins árin 2011 og 2016 og markaðsmaður ársins árið 2017.
Skúli var framkvæmdastjóri og einn af stofnendum hugbúnaðarfyrirtækisins OZ, samhliða því sem hann lærði heimspeki við Háskóla Íslands. Þegar mest var voru í kringum 200 manns starfandi hjá OZ og fyrirtækið seldi um 100 milljónir eintaka af samskiptahugbúnaði sínum til allra helstu farsímafyrirtækja heims. OZ var selt til Nokia árið 2008.
Skúli stofnaði jafnframt, ásamt fleirum, Íslandssíma, sem síðar varð Vodafone Iceland og CAOZ, sem framleiddi fyrstu 3D teiknimynd Íslands í fullri lengd, Þór - hetjur Valhallar. Skúli er einnig stærsti fjárfestir og situr í stjórn Carbon Recycling International, sem hefur byggt eina fyrstu metanólverksmiðju heims, þar sem sorpi og úrgangi er breytt í græna orku. Árið 2010 leiddi Skúli hóp fjárfesta í að endurreisa MP banka/Kviku eftir bankahrunið. Önnur verkefni sem Skúli hefur komið að síðastliðin ár eru fjárfestingar og stjórnarseta í Securitas, Advania, Datamarket og Redline Communications.
Skúli hefur ávallt stutt listir og menningu á Íslandi og heldur áfram að gera það með ýmsum hætti. Skúli er einnig mikill áhugamaður um íþróttir og má þar helst nefna skíði, þríþraut og hjólreiðar en Skúli er einn af stofnendum WOW cyclothon, árlegri boðhjólreiðakeppni þar sem hjólað er hringinn í kringum landið til styrktar góðu málefni.