10 góðar ástæður til að heimsækja Pittsburgh
Þessi stórborg í Pennsylvaníu hefur svo sannarlega upp á margt að bjóða.
Að ógleymdum háhýsunum, háskólunum og öllum vinalegu Ameríkönunum, er hér listi yfir 10 uppáhaldsafþreyingarnar okkar í Pittsburgh.
1. Verslanirnar
Það vantar ekki verslanirnar í Pittsburgh en fyrir utan vöruúrvalið má sérstaklega geta þess að í Pennsylvaníuríki er enginn skattur lagður á föt og skó. Það er óneitanlega góð skemmtun að fata sig upp í fínni merkjum í hverfinu Shadyside eða gera kostakaup í verslunarmiðstöðinni Ross Park Mall.
2. Götumaturinn
Pittsburgh er þekkt fyrir geggjaðan götumat og ber þar helst að nefna hina heimsfrægu samloku Primanti Bros. Safaríkt áleggið tollir varla á milli hnausþykkra brauðsneiðanna og að heimsækja Primanti Bros. í Strip District er ómissandi fyrir alla matarpílagríma. Fyrir alvöru lífskúnstnera og matgæðinga má benda á fínni veitingastaði á borð við með viðeigandi útsýni yfir borgina.
3. Vatnsrennibrautagarður
Veðurblíðan leikur við Pittsburgh á sumrin og þá er gott að vita að í borginni er frábær vatnsrennibrautagarður. Viltu hrapa niður 20 metra á leifturhraða, húrrast um í 140 metra löngu bláu röri eða bara njóta sólarinnar á rólegri siglingu eftir „ánni“? Kældu þig og fjölskylduna niður í Sandcastle í góða veðrinu.
4. Golf & skíði
Rétt utan við borgina er að finna frístundasvæðið Hidden Valley Resort en þar er tilvalið að koma við á golfvellinum í sumarfríinu og á skíðasvæðinu í vetrarfríinu.
5. Hjól
Pittsburgh er paradís hjólreiðamannsins enda eru ævintýralegar hjólaleiðir á svæðinu. Þar ber helst að nefna The Great Allegheny Passage sem liggur á milli stórborganna Pittsburgh og Washington D.C. Þetta er gullfalleg 540 km leið og ekki spillir fyrir að WOW air flýgur til beggja borga þannig að það er ekkert mál að hjóla aðra leið og fljúga svo beint heim.
6. Duquesne Incline
Duquesne Incline er 136 ára lestarkláfur sem flytur ferðalanga þægilegu leiðina upp á Mount Washington. Þetta er stórgóð skemmtun fyrir alla fjölskylduna sem kostar klink og útsýnið yfir borgina á toppnum er lygilegt.
7. Söfnin
Það er gríðarlegt framboð af söfnum í Pittsburgh og hér ættu allir að sleppa sínum innri nerði lausum á viðeigandi safni. Við mælum sérstaklega með Andy Warhol Museum en furðufuglinn Warhol var einmitt frá Pittsburgh. Svo eru litirnir í Randyland Folk Art Museum alveg sér á báti og um að gera fyrir litaglaða hippa að líta á dýrðina.
8. Dýragarðurinn og sædýrasafnið
Það er ekkert mál að eyða dásamlegum degi í Pittsburgh Zoo & PPG Aquarium. Þetta er risavaxinn dýragarður með yfir 4.000 dýr af 475 dýrategundunum. Ekki missa af frumskógasýningunni og nýfæddu fílastelpunni sem hægt er að kíkja á milli 11 og 14 alla daga, svo fremi sem hún er til í það.
9. Íþróttirnar
Pittsburgh-búar eru þekktir fyrir ódrepandi íþróttaáhuga sinn og það er svo sannarlega menningarupplifun að mæta á alvöru íþróttaleik í þessari ástríðufullu sportborg. Kíktu á hafnaboltaleik í PNC Park, íshokkíleik í PPG Paints Arena eða á amerískan fótbolta í Heinz Field. Mundu bara að standa upp, snúa þér að fánanum, taka niður derhúfuna og leggja hönd á bringu á meðan þjóðsöngurinn er sunginn.
10. Garðarnir
The Point er dásamlegur almenningsgarður í miðbæ Pittsburgh. Hann dregur nafn sitt af því að skaga út í ármót Allegheny og Monongahela ánna en garðurinn er bæði fallegur áningarstaður og lifandi samkomustaður. Fyrir lengra komna garðáhugamenn er hinn rúmlega 120 ára grasagarður Phibbs Conservatory and Botanical Gardens metnaðarfullur og ómissandi áfangastaður í borginni.
Bókaðu ódýrt flug til Pittsburgh hér og njóttu alls þess besta sem Pennsylvanía hefur upp á að bjóða!
____
Myndir: istockphoto.com og úr safni