Kræsingar í Cork
Taktu stefnuna á þriðju eyju til hægri!
Í Cork er dýrindismatur og dásamleg menning í næsta nágrenni.
Á að kíkja aðeins út fyrir landsteinana, spóka sig um í nýju umhverfi; drekka í sig græna menningu og góða stemningu á sem þægilegastan hátt? Kíktu þá í heimsókn til frænda okkar á Írlandi.
Þægindin
Cork er þægilegasta stærð af stórborg því hér er allt til alls en alltaf í göngufjarlægð. Það eykur síðan bara á lúxusinn að hér tala að sjálfsögðu allir ensku þótt hreimurinn sé kannski ögn þykkari en í hefðbundinni sjónvarpsdagskrá.
Borgin
Í borginni Cork búa 125.000 manns, flestir hverjir dæmigerðir afslappaðir Írar. Hér er nóg við að vera fyrir söguþyrsta, búðarþyrsta og svo auðvitað bara þyrsta ferðamenn. Það er magnað að skoða klukkuturninn úr Red Abbey frá 14. öld, síðustu leifar múrsins sem umkringdi borgina á miðöldum eða æsa sig með heimamönnum á góðum rugby-leik á Páirc Uí Chaoimh-leikvellinum. Hér er alltaf sniðug verslun eða sjarmerandi krá innan seilingar og Cork er tilvalin borg fyrir forvitinn lífskúnstner að týnast í.
Landsbyggðin
Cork-sýsla er rómuð fyrir náttúrufegurð og sjarma og hér gefst tilvalið tækifæri til að sjá meira af Írlandi en bara borgina. Eftir að hafa kynnst verslun og veigum Cork-borgar er um að gera að leigja sér bíl og keyra upp með vesturströndinni eftir hinni vinsælu leið Wild Atlantic Way eða austurströndinni eftir Ancient East leiðinni. Má bjóða þér kastala og sögu, eyjar og garða eða strandir og sjávarþorp? Hér er nóg við að vera í útivist, garðaskoðun og safnarölti að ógleymdum golfvöllum og veitingastöðum á heimsmælikvarða.
Maturinn
Íbúar Cork-sýslu eru ákaflega stoltir af matnum sínum og spilar ferskt sjávarfang þar stærstu rulluna. Þótt nóg sé af glæsilegum veitingastöðum í borginni jafnast fátt á við ferskan „heimagerðan“ matinn á hverfiskránni eða hráefnið á hinum gullfallega og sögufræga English Market. Leyfðu írsku lukkunni að leika við þig og pantaðu rétt dagsins á næstu krá.
Fljúgðu með WOW air til Írlands
og upplifðu spennandi borgarbrag og stórbrotna náttúru.
Myndir: Tourism Ireland