Vinalega Varsjá
Einn fallegasti gamli bær í Evrópu er tvímælalaust í Varsjá, höfuðborg Póllands. Borgin var stofnuð árið 1200 en þar búa nú 1,7 milljón manns. Varsjá er í miklu uppáhaldi hjá mörgum enda framúrskarandi og fjölbreyttur áfangastaður hvort sem fólk vill sögu, mannlíf eða bara almenna borgarfegurð. Hér eru fimm frábærar ástæður til að ferðast til Varsjár.
1) Fegurðin
Fyrir seinni heimsstyrjöld var Varsjá kölluð „París austursins“ enda talin ein fallegasta borg heims. Borgin var rústir einar þegar heimsstyrjöldinni lauk en reis úr öskunni með gríðarlegri uppbyggingu og fékk fyrir vikið nýtt viðurnefni: Fönixborgin. Sögulegur og gullfallegur gamli bær Varsjár hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan 1980 og það er sannarlega ógleymanlegt að rölta um þessi fallegu stræti.
2) Menningin
Varsjá er ekki bara rík af gamalli fegurð og sögufrægum stöðum. Hún er líka lifandi viðskiptaborg með sín risastóru háhýsi, hressandi frumkvöðlastarf og næturlíf í takt við það. Þetta er einmitt rétti staðurinn til að skála í vodka við vinalega heimamenn.
Fyrir menningarþyrsta er um að gera að kíkja á konungshöllina við ána Vistula, ganga þaðan í gegnum gamla bæinn eftir götunni Krakowskie Przedmiescie, kíkja í dásamlegar búðir og prófa yndisleg kaffihús. Þá er um að gera að enda í gullfallegum Łazienki-garði, skoða höllina þar og dást að fegurðinni.
Fyrir mannkynssöguáhugamenn er vert að nefna alla sögustaðina úr seinni heimsstyrjöldinni sem bjóða upp á áhrifaríkar og fróðlegar heimsóknir eins og Varsjársafnið, Uppreisnarsafnið og gyðingakirkjugarðinn. Tónlistarunnendur ættu ekki að láta Chopin-safnið fram hjá sér fara og Nútímalistasafnið svíkur engan listáhugamanninn.
3) Maturinn
Pólsk matargerð er iðnaður í blóma eins og sést á fjölbreyttu úrvali nýrra veitingastaða í Varsjá. Þar kennir ýmissa grasa, allt frá tilraunaeldhúsunum til Michelin-stjörnu veitingastaðanna Atelier Amaro og Senses. Fyrir þá sem vilja sanna pólska upplifun á diskinn sinn borgar sig að panta réttinn pierogi, gómsæta hálfmána fyllta með mismunandi hráefnum, allt frá kartöflum og osti (ruskie) til svínakjöts og káls að ógleymdu sætu pierogi með ávöxtum. Kássan bigos er líka klassískur þjóðarréttur Pólverja en best er að fá alvöru pólska ömmu til að elda hana ofan í sig.
4) Verðlagið
Verðlagið er óneitanlega einn af stóru kostunum við Varsjá fyrir ferðamenn. Hér er allt ódýrt (ekki bara á íslenskan mælikvarða), föt, matur, skemmtanir, áfengi og leigubílar. Það er hægt að skemmta sér konunglega í Varsjá fyrir ótrúlega lítinn pening. Stór bjór í matvöruverslun kostar um 90 ISK og dýrasta steikin á fínum argentískum veitingastað fer á um 3.000 ISK. Þetta er rétti staðurinn til að leyfa sér lúxus því hann kostar bara klink.
5) Fólkið
Síðast en klárlega ekki síst ber að nefna vinalega heimamennina því það er ekkert sem fullkomnar gott ferðalag eins og gott fólk. Varsjárbúar eru þjónustuliprir og vingjarnlegir og þeir hugsa vel um borgina sína sem er hrein, hugguleg og aðgengileg aðkomumönnum.
Bókaðu ódýrt flug til vinalegu Varsjár með WOW air strax í dag.
_____
Texti: Guðrún Baldvina Sævarsdóttir
Myndir: iStock